Hvað er sjálfkeyrandi bíll?

Sjálfkeyrandi bílar hafa verið mikið til umræðu undanfarin misseri og ekki af ástæðulausu. Á síðustu árum hafa svo til allir stærstu bílaframleiðendur heims unnið að þróun sjálfkeyrandi tækni og sömu sögu er að segja af mörgum stærri tæknifyrirtækjum á borð við Alphabet og Apple. En hvað er sjálfkeyrandi bíll og hvað skilgreinir hann? Alþjóðleg samtök verkfræðinga í samgönguiðnaði, SAE, hafa þróað flokkunarkerfi sem skilgreinir sjálfkeyrandi tækni á mismunandi stigum.

Flokkunarkerfið, sem má sjá hér að neðan ásamt skýringum, leitast við að svara því „hver gerir hvað hvenær“ við stjórnun ökutækisins og lýsir kerfinu en ekki ökutækinu. Skalinn nær frá núll upp í fimm, þar sem öll verkefni við aksturinn eru í höndum ökumanns í stigi núll en alfarið tölvustýrt á stigi fimm.

Taflan hér að neðan er þýdd yfir á íslensku. Upprunalega töflu SAE má finna hér.

Screen Shot 2017-07-06 at 15.57.52
*Með Akstri er átt við stjórn ökutækisins (stýra, bremsa, innspýting, eftirlit með ökutækinu og veginum) og ákvörðunum við akstur (bregðast við aðstæðum, skipta um akrein, nota stefnuljós og svo framvegis).
**Möguleikar og færni kerfisins varða ákvörðunartöku við flóknari aðstæður (aðrein/frárein á hraðbraut, umferðaröngþveiti, keyrsla á miklum hraða).

Stig 0 – Engin sjálfstýring

Bíllinn er að öllu leyti og undir öllum kringumstæðum undir stjórn ökumannsins.

Dæmi: Kerfið er í besta falli “aðvörunarkerfi“ og aðstoðar t.a.m. ökumann við að bakka inn í þröng stæði með því að gefa frá sér hljóð ef eitthvað verður í vegi bílsins en öll stjórnun (stýra, bremsa, innspýting og svo framvegis) er í höndum ökumanns.

Stig 1 – Aðstoð við ökumann

Sjálfvirka tölvukerfið getur stundum aðstoðað ökumanninn við afmarkaða hluta keyrslunnar, t.d. getur kerfið aðstoðað við að stýra ökutækinu og hraða þess (cruise control).

Dæmi: Kerfið stýrir bílnum inn í bæði venjuleg og samsíða bílastæði, og einnig út úr samsíða bílastæðum. Kerfið sér hér um að stýra bílnum á sem bestan hátt við þessar ákveðnu aðstæður en bremsa og bensíngjöf er áfram undir stjórn ökumannsins.

Stig 2 – Sjálfstýring að hluta

Sjálfvirka tölvukerfið getur stýrt ökutækinu við ákveðnar aðstæður en eftirlit með aðstæðum er enn í höndum ökumannsins, sem einnig sinnir þeim hluta akstursins sem tölvukerfið ræður ekki við. Þetta þýðir að tölvukerfið getur leyst ökumanninn af hólmi við aksturinn, og ökumaðurinn þarf því ekki að stíga á bensíngjöf eða halda um stýrið. Hann þarf aftur á móti að vera viðbúinn og tilbúinn að taka yfir stjórnina ef þörf krefur.

Dæmi: Kerfið getur stýrt hraða bílsins í hægri umferð (umferðarteppu), og hægir á bílnum eða gefur í eftir því sem umferðin leyfir. Líta má á þetta stig sem uppfærslu af „cruise control“, þar sem kerfið getur nú einnig hægt á sér eða aukið hraðann, og stöðvað bílinn eða tekið af stað (en ekki skipt um akrein). Tesla Autopilot má flokka sem stig 2 í dag.

Stig 3 – Skilyrt sjálfstýring

Sjálfvirka tölvukerfið getur bæði stýrt ökutækinu við ákveðnar aðstæður og fylgst með umhverfinu við ákveðnar aðstæður, en bílstjórinn verður að vera reiðubúinn að taka við stjórninni þegar tölvukerfið kallar eftir því. Helsta breytingin á milli stiga 0-2 og 3-5 er sá að á  efri stigum getur tölvukerfið fyglst með og metið umhverfið.

Dæmi: Á hraðbraut getur kerfið stýrt hraða og einnig tekið framúr og skipt um akrein. Ef aðstæður verða kerfinu ofviða þá getur það kallað eftir því að ökumaður taki við stjórninni.

Stig 4 – Mikil sjálfstýring

Sjálfvirka tölvukerfið getur stýrt ökutækinu og fylgst með umhverfinu, og ökumaðurinn getur aðeins stýrt við ákveðnar aðstæður í ákveðnu umhverfi.

Dæmi: Á hraðbraut getur kerfið stýrt hraða og einnig tekið framúr og skipt um akrein. Ökumaður getur slökkt á kerfinu, en tölvukerfið mun ekki þurfa að kalla eftir því að ökumaður taki við stjórn.

Stig 5 – Algjör sjálfstýring

Sjálfvirka tölvukerfið getur stýrt ökutækinu að öllu leyti við allar þær aðstæður sem ökumaðurinn gæti. Ökutæki á þessu stigi þarf ekki stýri.

Dæmi: Tölvukerfið stjórnar bílnum að öllu leyti, við allar aðstæður, frá upphafspunkti A til endastöðvar B.

Fjölmörg hugtök og orðasambönd eru þýdd eftir bestu getu yfir á íslensku. Framgöngur hyggjast þróa og bæta íslensku heitin og orðasamböndin sem eiga við sjálfkeyrandi tækni, og fagna öllum ábendingum er það varðar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s