Gömlu bílarisarnir í kröppum dansi með nýju, flottu krökkunum

Schumpeter, einn nafnlausra skoðanadálka í the Economist tímaritinu, fjallaði nýlega um baráttu rótgrónu bílaframleiðendanna í Detroit-borg í Bandaríkjunum við að halda í við tæknifyrirtækin í Sílíkondal. Umfjöllunarefni Schumpeter var sögulega lágt hlutabréfagengi gömlu risanna í Ford og General Motors, á sama tíma og fjárfestar á Wall Street sýna nýjum fyrirtækjum sem starfa í samgöngugeiranum mikinn áhuga: fyrirtækjunum sem nú leiða þróun rafmagnsvæðingar bílaflotans, deilibíla og sjálfkeyrandi bíla.

Schumpeter segir bílarisana í Detroit standa frammi fyrir klassískri klemmu þeirra sem fyrir eru á markaði. „Undirliggjandi breytingar í bílaiðnaðinum eru raunverulegur: það hvernig bílar eru búnir til og þeir notaðir er að breytast. En þróunin er umlukin öfgum. Félögin í Detroit standa frammi fyrir klassískri klemmu þeirra sem fyrir eru á markaði (e. classic incumbent’s dilemma). Þau verða að sýna að þau geti dansað með flottu krökkunum, án þess að tapa veskinu eða virðingu sinni.“

Brekka hjá GM og Ford

Þrátt fyrir að Detroit borg, sem stundum er kölluð Motor City vegna umfangsmikils bílaiðnaðar á svæðinu, rétti þessi misserin úr kútnum eftir erfiðan áratug í kjölfar efnahagshrunsins, þá hefur tveimur stærstu bílaframleiðendunum GM og Ford gengið illa að heilla fjárfesta á nýjan leik. Hlutfall markaðsvirði félaganna af hagnaði (Price-earning hlutfall) er í lægstu lægðum, og meðal þess lægsta sem sést hjá skráðum félögum í S&P 500 vísitölunni.

Þetta telur Schumpeter óheillamerki. „Lágt P/E hlutfall er leið markaðarins til að segja þér að reksturinn eins og þú þekkir hann er búinn að vera.“ Þrátt fyrir að félögin tvö hafi samanlagt hagnast um 18 milljarða dollara á síðasta ári, þá er markaðsvirði þeirra aðeins 98 milljarðar dollara. „Þetta hlutfall bendir til að hagnaður félaganna mun helmingast eða þaðan af verra, og hratt,“ segir í Schumpeter-dálkinum, sem nefndur er í höfuðið á hagfræðingnum þekkta.

Er verðlagningin sanngjörn?

Virði Uber, Tesla og Waymo (dótturfélags Alphabet, sem áður hét Google), er í öllum tilvikum hærra en markaðsvirði gömlu bílarisanna. Þrátt fyrir taprekstur þeirra í dag og mun minni sölu en hjá GM og Ford, þá eru væntingar til framtíðar miklar sem endurspeglast í fjárhagsmati á félögunum. Til dæmis telja greinendur Morgan Stanley bankans að Waymo, sem nú vinnur að þróun sjálfkeyrandi tækni, muni selja fyrir meira en 200 milljarða dollara fyrir árið 2030. Það myndi gera Waymo eitt og sér að fimmta stærsta fyrirtæki Bandaríkjanna. „Ekki slæmt, að því gefnu að fyrirtækið hefur engar vörur til sölu,“ segir Schumpeter háðslega.

cotd411

Hér má sjá markaðsvirði Tesla, GM og Ford í apríl 2017, tekjur félaganna á árinu 2016, framleiðslu og rekstrarafkomu. Stjórnendur bílarisanna telja verðlagningu ekki í samræmi við undirliggjandi rekstur.

Stjórnendur Ford og GM telja verðlagningu á sínum félögum ósanngjarna og ekki endurspegla raunveruleikann. Þeir telja fjárfesta í dag gera tvenn mistök. Í fyrsta lagi vanmeti fjárfestar hversu erfitt það er að fjöldaframleiða bíla. Stjórnendurnir benda á að Tesla framleiðir í dag 1% af þeim fjölda sem GM framleiðir á ári.  Í öðru lagi vanmeti fjárfestar líkurnar á að innan bílarisanna séu fyrirtæki eða rekstrareiningar jafngóðar og Tesla, Uber eða Waymo. Bílaframleiðendurnir vinni nefnilega sjálfir að nýrri tækni auk þess sem þeir eiga hlutdeild í „framtíðarfélögunum“. Þannig á GM 9% hlut í Lyft, helsta keppinaut Uber, í fyrra keypti GM fyrirtækið Cruise sem þróar sjálfkeyrandi tækni, og framleiðir auk þess rafmagnsbílinn Chevrolet Bolt. Ford áætlar að 20 mismunandi rafmagnsökutæki frá félaginu verði á götum úti fyrir árið 2020, nýlega var skipt um forstjóra og sá leiddi áður tækniþróun ford, og ákveðið hefur verið að fjárfesta fyrir einn milljarð dollara á næstu fimm árum í gervigreindar-fyrirtækinu Argo, fyrirtæki sem þróar hugbúnað fyrir sjálfkeyrandi ökutæki.

En fjárfestum virðist nokk sama. Þeir meta áhættu rekstursins í dag ofar möguleikum til framtíðar, og óttast t.a.m. að bílasala í Bandaríkjunum standi nú í hæstu hæðum.

Svarið að búa til sérstök félög?

Í herbúðum Ford og GM er það til skoðunar að búa til sérstök dótturfélög utan um tækni- og framtíðarrekstur, og búa þannig til félög sem hægt væri að auglýsa sem „hið nýja Ford“ og „hið nýja GM“. Þannig væri hægt að keppa við Tesla, Uber og Waymo um hylli fjárfesta, og mögulega rífa upp markaðsvirði móðurfélaganna Ford og GM.

Schumpeter telur þetta þó áhættusamt. „Bílaframleiðendurnir gætu hafið ferli sem ekki er hægt að stjórna. Wall Street gæti orðið spennt og krafist þess að nýju dótturfélögin verði seld, og þannig rænt bestu eignunum af Detroit,“ segir í greininni. Risar á fjarskiptamarkaði hafi reynt svipaða strategíu með farsímaþjónustu á 10. áratuginum og eftir aldamót, en sameinað félögin að nýju nokkrum árum síðar.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s