Lyft stofnar sérstaka deild um sjálfkeyrandi bíla og boðar opið samstarf

Samgönguþjónustufyrirtækið Lyft* tilkynnti í síðustu viku um stofnun sérstakrar deildar innan fyrirtækisins sem hefur það hlutverk að framleiða og þróa sjálfkeyrandi tækni. Áform fyrirtækisins, og ekki síst nálgun, vekja athygli en það hvernig Lyft nálgast framtíð sjálfkeyrandi bíla er með nokkuð öðrum hætti en helsti keppinauturinn, Uber. Lyft hyggst þróa tækni aðgengilega öllum þeim sem vilja eiga í samstarfi. Lyft ætlar þannig að leggja til sitt eigið app og það net upplýsinga sem það inniheldur, vinna í samstarfi við bílaframleiðendur og aðra sem þróa sjálfkeyrandi tækni, og búa til opið kerfi sjálfkeyrandi tæknibúnaðar, bæði vél- og hugbúnað.

New York Times útskýrir muninn á nálgun Uber og Lyft með því að bera fyrirtækin saman við Apple og Google, og það hvernig þau tvö fyrirtæki hafa nálgast snjallsíma. Uber er í þeim samanburði svipað Apple. Fyrirtækið vill þróa sinn eigin hugbúnað og keyra áfram á „eigin“ bílum. Nálgun Lyft er aftur á móti meira svipuð Google og Android stýrikerfi sínu, þ.e. að hægt verði að nota tækni Lyft af mörgum mismunandi aðilum (bílafyrirtækjum). Þannig vonast Lyft til að tæknin nái hraðari dreifingu en ella.

Í þessum tilgangi hefur Lyft lagt undir sig stærðarinnar svæði í Palo Alto í Kaliforníu, þar sem þróun og prófanir munu fara fram. Nýja deildin gengur undir nafninu Level 5, sem vísar til efsta stigs sjálfkeyrandi tækni.

Framtíðarsýn Lyft

Lyft hefur þegar hafið samstarf við nokkra bílaframleiðendur og tæknifyrirtæki á sviði sjálfkeyrandi tækni. Í maí sl. var greint frá samstarfi Lyft og Waymo, sjálfkeyrandi tæknideild Alphabet, en þá var stefna Lyft að þróa ekki sinn eigin tæknibúnað, hvort sem er vélbúnað eða hugbúnað, heldur eiga í samstarfi við aðra með því að leggja til notendanet sitt. Stefnubreytingin sem felst í tilkynningu Lyft nú vekur því nokkra athygli og þykir til marks um harða samkeppni, þótt fyrirtækið hafi vissulega lengi sýnt sjálfkeyrandi tækni mikinn áhuga.

Í bloggfærslu Luc Vincent, yfirmanns tækniþróunar hjá Lyft, leggur hann á það áherslu að sjálfkeyrandi tækni sé ekki hliðarverkefni hjá fyrirtækinu, heldur grundvöllur þess og framtíð. „Við trúum því að Lyft sé í bestri aðstöðu til að sýna hversu frábær notendaupplifun getur verið. Lyft er einnig í einstakri aðstöðu til að skapa tækni í samastarfi við aðra, sem myndi gera það mögulegt að koma á göturnar sjálfkeyrandi bílum í massavís á sem fljótlegastan, öruggastan og skilvirkastan hátt,“ segir hann og nefnir fyrir því nokkrar ástæður.

Meðal annars geti Lyft boðið upp á mikla stærðarhagkvæmni með Lyft appinu, þ.e. notendanetinu. Með því sé hægt að „þjálfa“ sjálfkeyrandi hugbúnaðarkerfi hratt. „Á hverjum degi eru farnar yfir ein milljón ferðir innan okkar kerfis í yfir 350 borgum. Það jafngildir tugum milljónum mílna á hverjum degi. Þegar í dag getum við notað gögnin sem safnast til að skilja veröld okkar betur, sem hjálpar okkur að skapa betra umhverfi fyrir farþega og bílstjóra okkar. Sem dæmi, þá fáum við innsýn í ferðahegðun, þau svæði þar sem eftirspurn er mikil og hver nýting bílstjóra er eftir svæðum. Horft fram á veginn þá sjáum við mikil tækifæri í að nota kerfið og bílaflota Lyft til að gera meira, við sjáum tækifæri í að byggja upp háskerpu þrívíddarkort, á sama tíma og við söfnun gögnum fyrir sjálfkeyrandi bíla,“ segir í bloggfærslunni. Með því að gera þetta með opnum aðgangi (e. on an open platform), þá muni reynslan ekki aðeins nýtast Lyft heldur samstarfsfélögum einnig.

Lyft sér fyrir sér blandað kerfi sjálfkeyrandi bíla og Lyft-bíla með bílstjóra. Þannig geti sjálfkeyrandi bílar séð um þær ferðir sem þeir ráða við, en að öðrum kosti verði farþegar sóttir af bílstjóra. Eftir því sem tækninni fleygir fram, því stærri hluta heildarferða geta sjálfkeyrandi bílar séð um. Þannig sér Lyft fyrir sér „mjúkt“ umbreytingarferli frá mennskum bílstjórum yfir í sjálfkeyrandi ökutæki.

Í lok færslunnar segir Vincent að þessi sýn drífi starfsfólk Lyft áfram. „Að byggja framtíð þar sem sjálfkeyrandi deilibílar gera samgöngur ódýrari og skilvirkari fyrir alla. Þetta er framtíð þar sem bílar á götunum eru færri og traffík er minni. Framtíð þar sem við fórnum minna af landi undir vegi, steypu og bílastæði –  og tökum meira pláss fyrir garða, leikvelli, heimili og fyrirtæki í nærumhverfinu. Þetta er framtíð þar sem bílar leggja minna af mörkum til útblásturs gróðurhúsalofttegunda, og mengun er minni. Þetta er framtíð, í stuttu máli, þar sem við byggjum samfélag okkar í kringum fólk, en ekki bíla.“

*Lyft er, líkt og keppinautur sinn Uber, svokallað ride-hailing company, og því ekki leigubílaþjónusta í hefðbundnum skilningi þess orðs – þótt þjónustan sé sú sama nema að því leyti að fara fram í gegnum app.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s