Löggjafar beggja vegna Atlantshafs fókusa á sjálfkeyrandi bíla

Samhliða örri þróun sjálfkeyrandi tækni hefur þrýstingur á löggjafa aukist um heim allan. Mikilvægum spurningum varðandi leyfisútgáfu, ábyrgð, staðla og umferðarreglur er víða ósvarað þegar kemur að prófunum og þróun sjálfstýringar sem og framtíðarregluverki. Þrýstingur á að löggjafinn haldi í við þróunina kemur einkum úr tveimur áttum, annars vegar frá framleiðendum sjálfkeyrandi bíla og hins vegar frá samtökum og lobbýistum sem berjast fyrir auknu umferðaröryggi.

Áskoranir sem stjórnvöld standa frammi fyrir vegna sjálfstýringar í umferðinni eru í dag einkum tvær. Í fyrsta lagi þarf regluverkið að vera þannig úr garði gert að leysa megi úr læðingi þann ábata sem sjálfstýring getur haft í för með sér. Sá ábati er m.a. aukið öryggi í umferðinni, en ályktun um aukið öryggi er helst dregin af þeirri staðreynd að yfirgnæfandi hlutfall umferðarslysa má í dag rekja til mannlegra mistaka. Í öðru lagi er það hlutverk stjórnvalda að gæta öryggis borgaranna, í þessu tilviki umferðaröryggi. Þessi tvö markmið geta skarast á, einkum við þróun og prófun á bílunum.

Stjórnvöld víða um heim hafa um alllangt skeið veitt þróun sjálfkeyrandi bíla athygli og litið á tæknina jákvæðum augum, á sama tíma og þau hafa leitast við að bera kennsl á mögulegar áskoranir. Sem dæmi telja umferðaryfirvöld í Bandaríkjunum að þróun í samgöngumálum verði hraðari á allra næstu áratugum en á síðustu 100 árum, í Bretlandi kom fyrst út skýrsla um framtíðarmöguleika sjálfstýringar árið 2015, og sérfræðingar rannsóknarseturs Evrópuþingsins telja sjálfkeyrandi bíla vera meðal mikilvægustu tækninýjunga. Svona mætti lengi telja áfram.

En þrátt fyrir skýrslugerð og aukinn fókus þá hefur, þar til nú, lítið borið á lagasetningum um sjálfkeyrandi bíla. Nú er útlit er fyrir að málum þoki hraðar, en búist er við að báðar deildir Bandaríkjaþings muni samþykkja lagafrumvarp er varðar sjálfkeyrandi tækni þegar þingdeildir koma saman á ný í september. Og í Bretlandi gaf samgönguráðherra út í þessari viku viðmiðunarreglur fyrir netöryggi tengdra og sjálfstýrðra ökutækja.

Bandaríkin vilja bæða liðka fyrir og hamla ofvöxt

Fyrirtæki í Bandaríkjunum hafa verið leiðandi í þróun sjálfkeyrandi tækni. Þar hafa bílaframleiðendur og tæknifyrirtæki haft nokkrar áhyggjur af núgildandi regluverki um ökutæki, sem m.a. kveður á um að öll ökutæki séu búin stýri og fótstigum. Til að prófa ökutæki sem ekki falla undir núgildandi regluverk þarf sérstakt leyfi sem eru útgefin að hámarki 2.500 á ári hverju.

Þessu vilja fyrirtækin breyta, svo hægt sé að þróa sjálfkeyrandi bíla áfram. Búist er við að löggjafinn verði við þessari ósk með því að fjölga leyfum í allt að 25.000 frá og með gildistöku laganna, en mun síðan fara vaxandi ár frá ári og verða leyfin 100 þúsund árlega eftir þrjú ár.  Þannig vilja yfirvöld koma í veg fyrir of hraða fjölgun sjálfkeyrandi ökutækja á þróunarstigi í umferðinni.

Þá er búist við að þingmenn Bandaríkjaþings muni banna einstökum ríkjum að setja eigin lög um sjálfkeyrandi bíla og hönnun þeirra, útbúnað og virkni. Þannig á að reyna að samræma reglur frá einu ríkis til annars. Einstök ríki myndu þó áfram geta ákveðið regluverk er varða ábyrgð í umferðinni, skráningu ökutækja og tryggingamál.

Einnig er talið að Stofnun umferðaröryggismála í Bandaríkjunum (NHTSA) verði falið að semja reglur um þróun og prófanir sjálfkeyrandi bíla, en áður hefur stofnunin gefið út nokkurn fjölda skýrsla um þróunina og lagt til breytingar á núgildandi lögum.

Að lokum munu nýju lögin að líkindum taka á gagnaöryggi og persónuvernd. Eitt áhættuatriða sjálfkeyrandi og/eða tengdra ökutækja er einmitt gagna- og persónuvernd. Frumvarpið tekur á þessu m.a. með því að skylda fyrirtæki til að upplýsa um hvernig og hvaða gögnum er safnað, hvernig þau eru geymd og þeim deilt.

Bretar fókusa á netöryggi

Bandaríkjamenn eru ekki einir um að hafa áhyggjur af netöryggi. Fyrr í vikunni gaf samgönguráðherra Bretlands út átta viðmiðunarreglur er varða netöryggi tengdra og sjálfkeyrandi ökutækja. Reglurnar eru nokkuð almenns eðlis og er ætlað að tryggja það að fyrirtækin setji sérstakan fókus á netöryggishlið þróunarinnar, einkum öryggismál vegna mögulegra tölvuárása.

Búist er við að lagafrumvarp sem tekur á sjálfkeyrandi tækni og rafmagnsbílum á breiðari grunni komi innan tíðar á borð breska þingsins, en sjálf drottningin boðaði slíkt frumvarp við setningu þingsins í júní síðastliðnum. Þá sagði hún að frumvarpið myndi „leyfa nýsköpun að blómstra og tryggja það að næsta alda sjálfkeyrandi tækni verði þróuð, hönnuð og virkjuð í Bretlandi”.

Þessar nýlegu aðgerðir löggjafa beggja vegna Atlantshafsins benda til að yfirvöld ætli sér að halda í við öra tækniþróunina, bæði til að tryggja öryggi og svo sækja megi þann ábata sem tæknin hefur í för með sér.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s